Stórsveit Reykjavíkur var stofnuð í febrúarmánuði 1992. Helsti hvatamaður að stofnun 

hennar var Sæbjörn Jónsson en hann var aðalstjórnandi hljómsveitarinnar frá frá upphafi 

og til ársins 1999. Þá urðu þáttaskil í rekstri sveitarinnar og síðan þá hefur einkum verið 

unnið með virtum erlendum gestastjórnendum eða leiðandi mönnum í íslensku jazzlífi. 

Sveitin telur 17 hljóðfæraleikara sem allir eru vel menntaðir atvinnutónlistarmenn, þar af

nokkrir af fremstu jazztónlistarmönnum þjóðarinnar.

Í heimi rytmískrar tónlistar á Íslandi skipar stórsveit svipaðan sess og Sinfóníuhljómsveit 

Íslands gerir í klassískri tónlist. Hún er fjölmennasti tónlistarhópur landsins á þessu 

sviði, samnefnari þeirra sem leggja með alvarlegum hætti stund á aðra tónlist en klassíska.

 

Stórsveit Reykjavíkur hefur á undanförnum árum haldið á þriðja hundrað tónleika 

víðsvegar í Reykjavík og einnig á ýmsum stöðum á landsbyggðinni. Hún hefur lagt sig

eftir breiðum stíl tónlistarlega séð; flutt nýja og framsækna íslenska og erlenda tónlist, en

einnig leikið vinsæl eldri verk með vinsælustu söngvurum þjóðarinnar. Þannig spanna

fáir tónlistarhópar álíka breidd og Stórsveit Reykjavíkur, frá hinu nýjasta og sértækasta til

hins alþýðlegasta. Stórsveitin heldur að jafnaði 5-8 átta tónleika á hverju starfsári. Sveitin

hefur gefið út fimm geisladiska.

Fjölmargir innlendir og erlendir gestir hafa komið fram með hljómsveitinni á liðnum

árum sem einleikarar, einsöngvarar og gestastjórnendur, þeirra á meðal má nefna

Bandaríkjamennina Bob Mintzer, Frank Foster, Dick Oatts, Tim Hagans, Bill Homan,

John Fedchock Greg Hopkins, Andrew D’Angelo, Travis Sullivan og Maria Schneider.

Einnig má nefna lykilmenn í jazzheimi Norðurlanda s.s. Ole Kock Hansen, Eero

Koivistonen, Lars Jansson, Geir Lysne, Helge Sunde, Fredrik Norrén, Jesper Riis,

Nikolaj Bentzon, Ulf Adåker, Lasse Lindgren, Daniel Nolgård og Pétur Östlund. Þá

hefur þýska tónskáldið Maria Babtist einnig unnið með sveitinni.

Á meðal innlendra gestasöngvara má nefna Bubba Morthens, Andreu Gylfadóttur, 

Ragnari Bjarnasyni, Bogomil Font, Egil Ólafsson, Pál Óskar Hjálmtýson og Kristjönu

Stefánsdóttur. Innlendir stjórnendur hafa m.a. verið Sigurður Flosason, Samúel J.

Samúelsson, Þórir Baldursson, Stefán S. Stefánsson, Hilmar Jensson, Össur Geirsson og

Kjartan Valdemarsson.

 

.